Ríkissamningurinn
Þann 1. júni 2021 var samningurinn við Microsoft endurnýjaður með stærri skrefum inn í öruggara og sveigjanlegra vinnuumhverfi. Öll leyfi ríkisins verða uppfærð með tilliti til netöryggis og persónuverndar. Keypt verða E5 leyfi fyrir stjórnsýsluna og allar A-hluta stofnanir að undanskildum mennta- og háskólum, alls um 13.100 leyfi. Með því starfa opinberar stofnanir í hugbúnaðarumhverfi með mesta mögulega öryggi sem uppfyllir GDPR (persónuvernd) og allar öryggiskröfur helstu hagaðila, s.s. dulkóðun gagna, varnir gegn netárásum og vírusvarnir o.fl.
Markmið nýs samnings er að auðvelda fólki að sinna sinni vinnu, óháð staðsetningu, en á sama tíma að auka til muna öryggi notendaauðkenningar og þeirra upplýsinga sem unnið er með. Með tveggja þátta auðkenningu, ásamt gervigreindargreiningu á innskráningu notenda, vörnum gegn auðkennaþjófnaði í tölvupósti (phishing) og greiningu á óeðlilegri hegðun hugbúnaðar, er hægt að lágmarka til muna áhættuna á auðkennaþjófnaði og aðgengi óviðkomandi aðila að vinnuumhverfi starfsmanna ríkisins.
Verndun upplýsinga verður sameiginlegt verkefni starfsmanna og stjórnenda. Starfsmenn geta merkt skjöl eftir mikilvægi og því trúnaðarstigi sem þarf að ríkja um upplýsingarnar hverju sinni, ásamt því sem reglur geta takmarkað aðgengi og dreifingu skjala eftir innihaldi þeirra.
Vinnutækjum er stjórnað og aðgengi heft ef öryggisstillingar og ástand tækja uppfyllir ekki lágmarks öryggiskröfur.
Miðlæg öryggisgátt gefur kerfisstjórum skýjageira heildrænt yfirlit yfir stöðu öryggismála, ábendingar um viðbætur og það sem má betur fara, hugsanleg öryggisbrot og notendaauðkenni sem nauðsynlegt er að skoða nánar.
Til viðbótar felur nýr samningur í sér aðgengi allra starfsmanna ríkisins að Power BI umhverfinu, sem gerir stofnunum auðveldara fyrir að deila upplýsingum á stærri hóp neytenda (hvort sem það eru starfsmenn viðkomandi stofnunar, starfsmenn annara stofnana eða ráðuneyta eða almenningur á opinberu vefsvæði). Mörg tækifæri til hagræðingar geta falist í að viðhalda stjórnborði upplýsinga á sjálfvirkan hátt, í stað þess að dreifa upplýsingum reglulega á handvirkan hátt.
Power Automate er þjónusta sem gerir notendum kleift að sjálfvirknivæða handvirka og tímafreka ferla. Starfsfólk getur þannig varið tíma sínum betur í önnur mikilvægari verkefni.
Teams símkerfi verður aðgengilegt öllum stofnunum sem hafa áhuga á að færa símavirkni starfsmanna í Teams biðlarann, og sameina þar aukinn fjölbreytileika samskipta í sameinuðu umhverfi.
Framundan er spennandi vegferð sem felur í sér að virkja og innleiða þessar spennandi nýjungar inn á skýjageira ríkisins og vefa sífellt þéttari öryggisvef um notendur og upplýsingar í opinberri stjórnsýslu, á sama tíma og frelsi fólks er stóraukið með víðtæku aðgengi að vinnuumhverfi sínu, samvinnu á milli starfsfólks og stofnanna
Rekstraraðilar skýjageira og kerfisstjórar stofnana hafa ennfremur aðgang að Unified Premium Support samningi við Microsoft til 1. júní 2022.