Gistináttaskattur

Gistináttaskattur er lagður á skv. lögum nr. 87/2011. Gistináttaskattinum skal ráðstafa til uppbyggingar, viðhalds og verndunar fjölsóttra ferðamannastaða, friðlýstra svæða og þjóðgarða en 3/5 hlutar hans eiga að renna í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og 2/5 hlutar til þjóðgarða og friðlýstra svæða.

Gistináttaskattur er lagður á starfsemina og er kr. 100 á hvern einstakling pr. hverja selda gistináttaeiningu. Gistináttaeining er húnæði eða svæði sem leigt er út í þeim tilgangi að þar sé dvalið yfir nótt. Stofn til útreiknings gistináttaskatts er því fjöldi seldra gistinátta.

 Tilgreina skal gistináttaskatt á sölureikningi eða greiðslukvittun og myndar hann stofn til virðisaukaskatts. Á reikningnum þarf orðið gistináttaskattur að koma fram og heildarfjárhæð hans.

 Í stað þess að gistináttaskattur sé sundurliðaður sérstaklega sem einn af nokkrum liðum sem mynda heildarfjárhæð reiknings er heimilt að tilgreina gistináttaskattinn neðst á reikningi þar sem fram kæmi að hann væri innifalinn í heildarfjárhæðinni. Þannig gæti reikningur sem er t.d. í erlendum gjaldmiðli haft texta neðst sem segði að gistináttaskattur (lodging tax) væri innifalinn í reikningsfjárhæðinni og heildarfjárhæð hans tilgreind í íslenskum krónum. Heildarfjárhæð álagðs gistináttaskatts sem lagður er á reikninginn skal koma fram en ekki einungis að gistináttaskattur sé lagður á og að hann sé 300 kr. á hverja gistinótt.

Uppgjörstímabil og eindagar eru þeir sömu og fyrir virðisaukaskatt, 6 tímabil á ári.

 ----***---

 Gistináttaskattur myndar stofn til útreiknings virðisaukaskatts og ber 14% VSK eins og gistingin.

 Leiga á gistiaðstöðu ásamt gistináttaskatti, ef hann er ekki innifalinn í leigugjaldinu, skal tekjufæra í bókhaldi á tegund 45830 Leiga á gistiaðstöðu utandyra eða á tegund 45840 Útleiga á herbergjum á hótelum eða gistiheimilum.

 Þegar gengið er frá gistináttaskatti fyrir ákveðið tímabil skal gjaldfæra skattinn á tegund 57462 Önnur opinber gjöld til ríkisins með mótfærslu á tegund 220171 Gistináttaskattur ásamt kennitölu innheimtumanns. Réttast er að færa þessar færslur mánaðarlega til að jafna út á móti leigutekjunum.

Skil á gistináttaskatti til innheimumanns eru síðan bókuð á tegund 220171.

Dæmi: Fyrir tímabil janúar – febrúar hefur myndast skuld í bókhaldi þann 28. febrúar við innheimtumann á tegund 220171 sem er greidd á eindaga þann 5. apríl.