Víddir
Vídd 1
Notkun á vídd 1 er aðallega ætlað að sundurliða enn frekar einstakar tegundir hjá stofnunum sem þess óska. Dæmi ef þörf er á að sundurliða bókakaup eftir bókaflokkum eða hvort um sé að ræða erlendar bækur eða innlendar.
Færslur vegna bankareikninga stofnana verður að færa með vídd 1. Reglan er sú að vídd 1 fyrir bankareikninga byrjar á b (lítið b) og síðan númer bankareiknings. Dæmi um bankareikning nr. 758 hjá stofnun þar sem færslur yrðu þá bókaðar með vídd 1 sem b758.
Vídd 1 gengur þvert á viðfangsefni í bókhaldi stofnana, þ.e. víddin er ekki tengd sérstöku viðfangsefni né tegund hjá stofnuninni.
Stofna verður allar víddir hjá hverri stofnun fyrir sig. Víddir skulu vera að lágmarki 4 tölustafir en vídd 1 fyrir bankareikninga skulu þó allar byrja á litlu b. Mikilvægt er að huga vel að uppsetningu áður en víddir eru stofnaðar. Hægt er að nota bókstafi í víddum en ekki er mælt með því. Ekki er leyfilegt að nota séríslenska stafi í víddarnúmerum né sérstök tákn svo sem punkt, kommu, semikommu, strik o.s.frv.
Fjársýsla ríkisins sér um að stofna vídd 1 fyrir stofnanir.
Vídd 2
Notkun á vídd 2 er aðallega ætlað að halda utan um verkefni sem ganga þvert á viðfangsefni viðkomandi stofnunar. Vídd 2 er ekki tengd sérstöku viðfangsefni né tegund hjá stofnuninni. Til dæmis tilfallandi verkefni sem margar deildir eða viðfangsefni stofnunar koma að. Hægt er að halda utan um kostnað verkefnisins samhliða því að kostnaður er færður á viðkomandi deildir eða viðfangsefni.
Stofna verður allar víddir hjá hverri stofnun fyrir sig. Víddir skulu vera að lágmarki 4 tölustafir. Mikilvægt er að huga vel að uppsetningu áður en víddir eru stofnaðar. Hægt er að nota bókstafi í víddum en ekki er mælt með því. Ekki er leyfilegt að nota séríslenska stafi í víddarnúmerum né sérstök tákn svo sem punkt, kommu, semikommu, strik o.s.frv.
Fjársýsla ríkisins sér um að stofna vídd 2 fyrir stofnanir.
Vídd 3
Notkun á Vídd 3 er ætluð til að halda utan um kostnað við atvik sem ganga þvert á ríkisaðila, stofnanir, ráðuneyti vegna atburða sem hafa áhrif á þjóðfélagið og litlar líkur eru á að endurtaki sig í sömu sviðsmynd.
Atburðir sem falla undir þessa vídd eru:
Náttúruhamfarir (jarðhræringar, eldgos, skriður, flóð)
Manngerðar hamfarir (hryðjuverk, netárás)
Farsóttir/sjúkdómar
Önnur atvik/stórslys
Þessi vídd er samsett 5 tölustöfum (1+2+2) eða tegund + ár + raðnúmer.
Dæmi: 12301 fyrir jarðhræringar í Grindavík.
Fjársýsla ríkisins sér um að stofna vídd 3.
Innbyrðisviðskipti
Mælt er með að stofnanir nýti sér svæðið innbyrðisviðskipti til að aðgreina sölu á milli deilda. Ef um innbyrðisviðskipti innan stofnunar er að ræða og stofnunin vill nýta þennan möguleika skal skrá stofnananúmerið í svæðið. Aðeins skal nota þetta svæði með tegundum tekna og gjalda, ekki með efnahagstegundum.
Færslur vegna innbyrðisviðskipta verða að stemma debet og kredit í bókhaldi stofnunar, ef ekki hefur það áhrif á mánaðarlegt uppgjör og mismunur kemur fram í ársreikningi. Ekki er hægt að ljúka uppgjöri ef mismunur er til staðar.