Takmörkuð skattskylda

Fjársýsla ríkisins í samráði við ríkisskattstjóra vekur athygli á að skv. 3. gr. laga nr. 90/2003, lög um tekjuskatt, ber stofnunum að reikna og halda eftir tekjuskatti af allri þjónustu sem keypt er af erlendum aðilum og innt er af hendi hér á landi. Fjárhæð á reikningi skal skattleggja án nokkurs frádráttar.

Nokkur aukning hefur orðið á kaupum stofnana á þjónustu erlendra aðila og í mörgum tilfellum hefur ekki verið gerð grein fyrir þeim á viðeigandi skýrsluformi til skattyfirvalda. Einnig hefur tekjuskatti ekki verið haldið eftir þar sem við á og skil á honum því ekki verið gerð í ríkissjóð.

Allar greiðslur til erlendra aðila fyrir þjónustu sem innt er af hendi hér á landi, eru skattskyldar hér á landi. Það er á ábyrgð þeirrar stofnunar sem innir greiðsluna af hendi að halda eftir skatti, ella getur ríkisskattstjóri áætlað skattgreiðslu á viðkomandi stofnun.

Skatthlutföll eru breytileg milli ára.

Útreikningar og skil

Stofnanir skulu standa skil á skýrslum rafrænt, óháð því hvort haldið sé eftir skatti af greiðslum.  Við skil á skýrslum myndast krafa í heimabanka viðkomandi stofnunar.

Eindagi á skilum skattsins til innheimtumanns er 15. dagur næsta mánaðar eftir að greiðsla fór fram. Eingöngu er um rafræn skil að ræða þá mánuði sem greiðslur til erlenda aðila eiga sér stað.

Undanþága

Ef í gildi er tvísköttunarsamningur milli Íslands og heimalands þess aðila sem veitir þjónustuna getur erlendi aðilinn sótt um undanþágu frá skattlagningu á grundvelli samningsins. Samningar eru mismundandi hvað varðar gildistíma undanþágu og því þarf alltaf að kynna sér ákvæði viðeigandi samnings.

Erlendi aðilinn þarf að sækja um undanþágu á eyðublaði ríkiskskattstjóra, RSK 5.42. Fylla skal út alla reiti umsóknareyðublaðsins og skattyfirvöld í heimalandi umsækjanda staðfesta skattskyldu og heimilisfesti með því að stimpla og undirrita í reit 21 á umsóknareyðublaðinu. Sum lönd kjósa að veita slíka staðfestingu á eigin formi og er það jafngilt því að votta á RSK 5.42. Umsókn er ekki tekin til afgreiðslu ef staðfestingu skattyfirvalda vantar. Umsóknin er send á rsk@rsk.is og frumrit i pósti.

Þegar undanþága er samþykkt eru upplýsingar um umsækjanda settar í gagnagrunn hjá RSK sem innheimtumaður ríkissjóðs hefur aðgang að. Þannig er tryggt að rétt skatthlutfall reiknist miðað við ákvæði samningsins þegar skattkennitala viðkomandi er slegin inn.

Ef samþykkt undanþága er ekki til staðar þegar greiðsla fer fram þá getur erlendi aðilinn sótt um endurgreiðslu í 6 ár frá því að skatti var haldið eftir. Sótt er um endurgreiðslu á eyðublaði ríkisskattstjóra, RSK 5.43. Til að unnt sé að sækja um endurgreiðslu þarf að vera til staðar samþykkt undanþága. Hægt er að sækja samhliða um undanþágu og endurgreiðslu.

Bókhald

Þegar greiðsla reiknings vegna kaupa á erlendri þjónustu sem innt er af hendi hér á landi fer fram skal halda eftir andvirði tekjuskattsins. Færslur í bókhaldi stofnunar verða þannig að reikningurinn er gjaldfærður að fullu á viðkomandi kostnaðarstað með viðeigandi tegund. Tekjuskattinn skal færa kredit á tegund 22012 skattur á erlenda aðila og mismunurinn, sem er þá greiðsla til hins erlenda aðila, á tegund bankareiknings.

Upplýsingar/aðstoð

Nánari upplýsingar um meðferð í bókhaldi veita starfsmenn Fjársýslunnar. Hægt er að senda fyrirspurnir á postur@fjs.is .

Leiðbeiningar og aðstoð við rafræn skil og RSK 5.42 auk annarra upplýsinga eins og umsókn um endurgreiðslu veita starfsmenn ríkisskattstjóra, Lóa Ólafsdóttir, (loa@rsk.is) s.442-1114 og Elín Margrét Þráinsdóttir (elinm@rsk.is) s.442-1107. Stofnanir eru hvattar til að hafa samband við þær til að auðvelda sér þessa framkvæmd.